25.4.2010

Opnunin tókst mjög vel


Það komu milli 80 og 100 manns til okkar í dag, okkur til mikillar ánægju. Listafólkið kom með aðstandendur sína og það var hreykið fólk sem sýndi verkin sín. Gestir voru mjög ánægðir með sýninguna og vil ég þakka öllum þeim sem aðstoðuðu okkur á einn eða annan hátt. Hér eru myndir frá sýningunni.

24.4.2010

Fallegt barnalag

Gult fyrir sól,
grænt fyrir líf,
grátt fyrir þá sem reka menn út í stríð.
Hvítt fyrir börn,
sem biðja um frið,
biðja þess eins að fá að lifa´eins og við.
Er ekki jörðin fyrir alla?

Taktu þér blað,
málaðu´á það
mynd þar sem að allir eiga öruggan stað.
Augu svo blá,
hjörtu sem slá,
hendur sem fegnar halda frelsinu á.
Þá verður jörðin fyrir alla

Sýning sunnudag 25.apríl

Staður: Gallerý Brák, Brákarey, Borgarnesi.
Tími: 15-19
Sýningin mun standa til 9.maí og er opin milli 13 og 15 á daginn.

Vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta, fá gott viðmót með skemmtilegu fólki og þiggja veitingar í tilefni sýningarinnar.

Sýningin er haldin í samvinnu við List án landamæra.

Sum verkin eru til sölu og fer allur ágóði í ferðasjóð hópsins.
Þar sem við erum aðeins að "þjófstarta" með samþykki formanns Listar án landamæra þá er bæklingurinn þeirra ekki kominn til okkar en hér er hægt að sjá hann.

Verið hjartanlega velkomin. Við hlökkum til að sjá ykkur.

22.3.2010

Vorönn 2010


Tíminn líður og við höldum aftur af stað. Fyrst er unnið með mosaikflísar, búnir til kertastjakar, blómavasar og diskar. Næst er málað á glerdiska, bæði ferkantaða og hringlaga.
Við vorum svo lánsöm að fá styrk frá Menningarráði Vesturlands kr 150.000 og frá Menningarsjóði Borgarbyggðar fáum við 100.000. Einnig hefur Símenntunarmiðstöðin nú komið okkur til aðstoðar og greiðir laun Ólafar við vinnuna með okkur.

Við stefnum á að opna sýningu sunnudaginn 25.apríl kl 15 í Gallerý Brák. Við verðum í samvinnu við List án landamæra eins og tvö síðastliðin ár.

21.7.2009

Bréf til okkar.

Kæru vinir í Borgarnesi.

Okkur hjá List án landamæra langar að þakka þér/ykkur innilega fyrir framlag þitt/ykkar til listahátíðarinnar Listar án landamæra 2009.

List án landamæra eflist með hverju árinu sem líður. Þátttakendum og gestum fjölgar og sýnileiki hátíðarinnar verður meiri. Það er ekki síst fólki eins og þér/ykkur að þakka og við hlökkum til frekara samstarfs.

Listahátíðin List án landamæra var haldin í sjötta sinn nú í vor og var stærri en nokkru sinni fyrr. Hátíðin hófst þann 23. apríl með dagskrá í Iðnó Reykjavíkur og lauk þann 30. maí með myndlistasýningu í Íþróttahúsi Vestmannaeyja. Atburðir voru yfir 50 talsins og áttu sér stað um allt land.

Samstarfsaðilar í stjórn hátíðarinnar eru: Fjölmennt, fullorðinsfræðsla fatlaðra, Átak, félag fólks með þroskahömlun, Hitt húsið, Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp. Hafa þessir aðilar hrint af stað kröftugri hátíð sem sett hefur sterkan svip á menningarárið á Íslandi og brotið niður ýmsa múra. Á hátíðinni hafa fatlaðir og ófatlaðir unnið saman að ýmsum listtengdum verkefnum með frábærri útkomu sem hefur leitt til aukins skilnings manna á milli með ávinningi fyrir samfélagið allt.

Okkur langar líka til þess að bjóða þér/ykkur á tvo atburði sem verða á vegum Listar án landamæra þann 28.september næstkomandi. Annars vegar ráðstefnu á Grand hótel, undir yfirskriftinni: Líf og list án landamæra, um sýnileika, réttindi og þátttöku. Og hins vegar á sýningu í Borgarleikhúsinu um kvöldið en þar sýnir norski hópurinn Disimillis ásamt íslenskum leikhópum. Við munum auglýsa þetta frekar þegar nær dregur á heimasíðunni okkar: www.listanlandamaera.blog.is.


Bestu kveðjur og þakkir
Stjórn Listar án landamæra:

Helga Gísladóttir, Friðrik Sigurðsson, Ása Hildur Guðjónsdóttir,
Aileen Svensdóttir, Jenný Þórkatla Magnúsdóttir
og Margrét M. Norðdahl.



--
List án landamæra
www.listanlandamaera.blog.is
Sími: 691-8756