29.10.2007

Outsiders Art hópur í Brákarey


Dagana 24.-30.október dveljast fjórir Hollenskir listamenn með fötlun ásamt þrem aðstoðarmönnum sínum í Brákarey hjá Ólöfu Davíðsdóttur glerlistakonu. Listafólkið er úr hópi Outsiders Art listamanna en það er Hollendingurinn Huib van den Wijngaard sem stofnaði þessi samtök. Einnig taka þrír einstaklingar úr Borgarnesi þátt í Listasmiðjunni ásamt aðstoðarmönnum sínum.

Vorið 2007 sótti Arndís Ásta Gestsdóttir um styrk til Menningarráðs Vesturlands að frumkvæði Ólafar, svo hægt væri að bjóða einum til tveim Borgfirðingum að vera með í Listasmiðju þegar Outsiders Art hópur kæmi næst til hennar. Menningarráð sýndi verkefninu skilning og jákvæðni og veitti 200 þúsund krónum til verkefnisins. Í framhaldi af því var ákveðið að bjóða Arnari Pálma Péturssyni og Guðmundi Stefáni Guðmundssyni þátttöku. Ölver Þráinn Bjarnason bættist svo í hópinn í lok vikunnar og vann nokkur verk.

Þegar Huib van den Wijngaard var að ljúka listnámi sínu stóð hann frammi fyrir því að fáir vildu kaupa listaverk hans og varð hann því að leita sér að vinnu við eitthvað annað til að afla sér lífsviðurværis.
Fljótlega fór hann að vinna með einstaklingum með fötlun og fannst það afar gefandi. Þarna uppgötvaði hann marga listamenn sem ekki höfðu áður fengið tækifæri til að sýna hvað í þeim bjó. Sumir þeirra voru að laumast til að teikna og mála en földu svo verk sín fyrir augum almennings vegna þess sjálfstraustið var lítið og þeir fengu ekki viðurkenningu né hvatningu.

Hópurinn hans Huib fékk fljótlega nafnið Outsiders Art (utangarðslist) og hefur Huib unnið með hópnum alla tíð síðan. Það er hans hjartans mál að fá fólk með fötlun til að sýna hvað í því býr og sýna þeim fram á að list þeirra sé alveg jafn merkileg og list annarra.
Huib hefur alltaf lagt mikla áherslu á að það væri sama hvernig listamennirnir væru, það ætti ekki að flokka þá eftir kyni, litarhætti né neinu öðru. Listsköpun væri fyrir alla hvernig sem þeir væru og ef fólk með fötlun nyti þess að skapa og vinna við list þá ætti það fullan rétt á því rétt eins og aðrir.

Árið 1977 var fyrsta sýningin á vegum Outsiders Art haldin. Margir töldu að fólk með fötlun gæti ekki kallað sig listafólk og setti listaverk Outsiders Art hópsins skör lægra en verk annarra listamanna. Þetta var því mikil barátta fyrir Huib og hans fólk, sérstaklega vegna þess að hópurinn hans hafði ekki mikið sjálfstraust og því var erfitt að fá svona neikvæð viðbrögð frá almenningi.

Fyrsta vinnustofan fyrir Outsiders Art samtökin var opnuð fyrir 15 árum síðan. Smám saman hefur starfið aukist og orðið þekktara. Á vinnustofunni í Hollandi er unnið með myndlist og tónlist og er það von Huib að smám saman verði opnaðar fleiri vinnustofur í Hollandi fyrir Outsiders Art listamenn.

Huib hefur oft komið til Íslands í leit að efni fyrir listatímarit sem hann skrifar í. Fyrir nokkrum árum kynntist hann Ólöfu Davíðsdóttur í Brákarey og fann hann fljótt að hún hafði svipaðar hugsjónir og hann og í framhaldi af kynnum þeirra komu Huib og þrír aðrir aðstoðarmenn með sex listamenn frá Hollandi og Þýskalandi til Ólafar í fyrra og var hópurinn í rúma viku hjá henni og vann við glerlist undir hennar leiðsögn.

Listaverkin voru síðan flutt til Hollands og sýnd þar við góðar undirtektir. Sýningin var næst sett upp í Frankfurt í Þýskalandi og svo aftur í Hollandi. Viðskiptakona ársins 2006 í Hollandi eignaðist eitt listaverk frá Outsiders Art listamanni og eftir það keypti hún öll verk hópsins og gaf Hollenskum þingmönnum.
Outsiders Art hópurinn vinnur bæði skrautmuni og nytjahluti og eru verkin orðin eftirsótt víða um heim.


Ólöf í Brákarey notar eingöngu gler sem ekki nýtist í annað og vilja Hollendingarnir gjarnan fara að fordæmi hennar. Í Listasmiðjunni er glerið unnið á mismunandi hátt. Myndir eru teiknaðar og málaðar á gler sem síðan fer í brennslu og einnig er unnið með sandblástur. Þarna eru búnir til alls kyns diskar, plattar og skrautmunir.
Ef vel tekst til verður farið með munina á stóra sýningu sem haldin verður í Vín í Austurríki í maí 2008.

Engin ummæli: