13.5.2008

Skýrsla um starfsárið 2007-2008.

Outsiders Art (utangarðslist) á Íslandi.

Hvað er Outsiders Art?
Stofnandi verkefnisins heitir Huib van den Wijngaard og er hann Hollenskur listamaður. Hann hefur helgað samtökunum líf sitt síðustu áratugina eða allt frá því hann lauk listanámi og byrjaði að vinna með fólki með fötlun. Fljótlega áttaði hann sig á því að í hópi þeirra leyndust miklir listamenn sem hvorki höfðu getu né sjálfstraust til að sýna almenningi verk sín. Nú eru samtökin þekkt um allan heim og verk sumra listamannanna eftirsótt. Öll verkin sem unnin eru af Outsiders Art hópnum eru eign verkefnisins fyrir ágóða af sölu þeirra er fólkinu gert kleift að sinna listsköpun með mismunandi listformum á mismunandi stöðum án þess að þurfa að greiða efni, ferðir eða uppihald úr eigin vasa.

Forsaga málsins
Það var vorið 2007 sem undirrituð var beðin um að taka að sér að sækja um styrki, halda utan um og vinna við verkefni með Ólöfu Sigríði Davíðsdóttur listakonu í Gallerý Brák, Brákarey, Borgarnesi. Sjá heimasíðu hennar http://brakarey.blogspot.com

Ólöf hafði stuttu áður kynnst Huib van den Wijngaard og þau tekið upp samstarf. Huib var búinn að koma einu sinni til Ólafar með hóp af Hollensku og Þýsku fólki með fötlun sem vann undir hennar leiðsögn í vikutíma. Nú var von á öðrum hóp til Ólafar en í honum voru fjórir Hollenskir einstaklingar og þrír aðstoðarmenn þeirra.

Ólöfu datt í hug að það væri spennandi að bjóða Borgfirsku fólki með fötlun að taka þátt í verkefninu og hér kom undirrituð inn í málið ásamt Huldu Birgisdóttur iðjuþjálfa í Borgarnesi en hún er forstöðumaður búsetu fatlaðra í Borgarnesi

Byrjað var á að sækja um styrk til Menningarráðs Vesturlands og voru þeir svo vinsamlegir að veita verkefninu styrk sem dugði til að bjóða tveim Borgfirskum karlmönnum með fötlun að taka þátt. Sá þriðji fékk svo tækifæri til að vera með síðasta daginn sem Hollenski hópurinn dvaldi hér á landi.
Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vesturlandi styrkti verkefnið með því að greiða laun aðstoðarmanna hinna Borgfirsku listamanna. Einnig gaf undirrituð sína vinnu og leit á það sem styrk til verkefnisins.

Vinnan í Gallerý Brák.
Byrjað var á vinnslu glerverka til sandblásturs. Fólkið teiknaði á plast sem var límt á gler. Þeir sem gátu skáru svo myndirnar sínar út en aðstoðarfólk vann það verk í sumum tilfellum.
Hópurinn málaði því næst myndir á mismunandi stóra glerdiska seinni hluta tímabilsins. Það var stórkostlegt að fylgjast með okkar mönnum byrja hikandi að vinna sínar fyrstu myndir og með tímanum sjá þá blómstra og njóta þess að skapa falleg listaverk sem aðrir dáðust að.

Í lok vinnuvikunnar var haldin sýning í Gallerý Brák og voru það stoltir listamenn sem tóku á móti gestum og sýndu þeim hvað þeir höfðu gert. Einnig sýndum við hluta listaverkanna og settum upp glærusýningu með myndum og texta til að kynna Outsiders Art verkefnið í Landnámssetrinu þegar vetri var fagnað þar með ýmsu móti.

Verkefnið vakti athygli víða um land.

Fjölmiðlar sýndu verkefninu verðskuldaða athygli og kom fréttafólk frá Skessuhorni og Morgunblaðinu og tók viðtal við fólkið og einnig gerði Gísli Einarsson fréttamaður mjög góðan þátt sem sýndur var í Kastljósi hjá Ríkisútvarpinu.

Í framhaldi þessarar viku kom fram áhugi hjá fleirum að taka þátt. Við vorum svo heppin að fá annan styrk úr styrktarsjóði Kristins Arnars Friðgeirssonar og var því hægt að halda þriggja daga námskeið fyrir sex Borgfirska menn með fötlun. Þar var unnið talsvert magn kertastjaka, diska og platta úr gleri og var mikil ánægja ríkjandi hjá hópnum.

Haldin var sölusýning í Gallerý Brák sunnudaginn 2.desember 2007. Þar voru seld glerverk fyrir rúmar 160 þúsund krónur. Þeir peningar voru allir settir í sameiginlegan ferðasjóð Borgfirskra utangarðslistamanna.

Árið 2008
Eftir áramótin varð full langt hlé þar sem Ólöf var frá vegna veikinda en þegar hún kom aftur til starfa var haldið áfram. Við vorum svo lánsöm að Sparisjóður Mýrarsýslu og Menningarsjóður Borgarbyggðar styrktu okkur til áframhaldandi starfs og nú buðum við upp á vinnu með leir undir leiðsögn Elísabetar Haraldsdóttur leirlistakonu. Hún tók ekki greiðslu fyrir sína vinnu með hópnum og er henni hér með þakkað innilega fyrir sinn stuðning við verkefnið.
Prófað var að mála myndir með akrýllitum og unnið áfram við glerið. Það var unnið stíft þessar vikur sem við höfðum og mætti hópurinn oft í viku svo hægt væri að halda sýningu í samstarfi við hátíðina List án landamæra.

Þann 20.apríl 2008 var svo opnuð sölusýning í Landnámssetrinu í samstarfi við hátíðina List án landamæra. Framkvæmdastjóri verkefnisins Margrét Norðdahl heiðraði okkur með nærveru sinni og undirrituð hélt smá ræðustúf. Sýningin var opin í rúmar tvær vikur og vakti jákvæð viðbrögð þeirra sem hana sáu, m.a. var skrifað um hana í héraðsblaðinu okkar Skessuhorni.

Ákveðið hefur verið að vinna á miðvikudögum milli kl 16 og 18 út þennan mánuð og síðan fara fjórir úr hópnum þ.e. þeir sem hafa verið með í allan vetur auk Ólafar listakonu og tveggja aðstoðarmanna á ráðstefnu Evrópskra Outsiders Art listamanna í Vín í Austurríki 29.maí til 2.júní.

Með sölu á listaverkum í vetur og styrkjum frá fyrirtækjum og stofnunum sem listamennirnir hafa heimsótt hér í Borgarnesi höfum við náð langleiðina í að vinna fyrir fargjaldi og gistingu í Vín.

Hvað tekur svo við að lokinni Vínarferð?

Verið er að opna Outsiders Art listasmiðju í Hollandi sem hefur fengið nafnið Gallery Ólóf og er nafnið til heiðurs Ólöfu listakonu í Gallerý Brák í Borgarnesi. Hún mun væntanlega fara þangað í sumar til að kaupa verkfæri, opna vinnustofuna og koma starfseminni af stað með Huib og hans fólki.

Það væri mjög gaman að geta sent efnilegustu listamennina okkar til Hollands svo þeir geti unnið áfram með hinum Hollensku listamönnum sem hingað komu. Til þess að það geti orðið þá þarf að vinna meira við fjáröflun og það hið fyrsta. Allt veltur þetta á hvað við höfum mikið hugmyndaflug og hverjar undirtektir eru hjá þeim sem við leitum til því örorkubætur eru ekki það miklar að hægt sé að taka af þeim í svona ferðalög.

Eftirtaldir styrktu verkefnið árið 2007:
Menningarsjóður Vesturlands styrkti okkur um 200 þúsund.
Styrktarsjóður Kristins Arnars Friðgeirssonar styrkti okkur um 100 þúsund.
Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra greiddi laun aðstoðarfólks.
Arndís Ásta Gestsdóttir gaf vinnu sína við verkefnið.

Eftirtaldir styrktu verkefnið árið 2008:
Menningarsjóður Vesturlands styrkti okkur um 200 þúsund.
Menningarráð Borgarbyggðar styrkti okkur um 200 þúsund.
Sparisjóður Mýrarsýslu í Borgarnesi styrkti okkur um 250 þúsund.
Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra greiddi laun aðstoðarfólks.
Elísabet Haraldsdóttir leirlistakona gaf vinnu sína með hópnum.

Fyrir hönd Borgfirskra utangarðslistamanna flyt ég öllum þeim sem styrkt hafa verkefnið á einn eða annan hátt innilegar þakkir fyrir aðstoðina.

Án ykkar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.

Listasjóður Borgfirskra utangarðslistamanna er:
Reikningur: 0326-13-3605
Á kennitölu Arndísar Ástu Gestsdóttur
260552-2289

Ferðasjóður Borgfirskra utangarðslistamanna er:
Reikningur: 0326-13-2605
Á kennitölu Arndísar Ástu Gestsdóttur
260552-2289

Skráð í Borgarfirði 13.maí 2008.
Með bestu kveðjum og innilegu þakklæti.

Arndís Ásta Gestsdóttir

Engin ummæli: