Forsaga málsins:
Það var vorið 2007 sem Arndís Ásta Gestsdóttir var beðin um að taka að sér að sækja um styrki, halda utan um og vinna við verkefnið Outsiders Art-utangarðslist sem ekki hafði verið á Íslandi áður. Upphaf málsins var það að Ólöf Sigríður Davíðsdóttir listakona í Gallerý-Brák í Borgarbyggð bauð nokkrum Hollenskum og Þýskum einstaklingum til sín árið 2006.
Von var á fjórum listamönnum með fötlun frá Hollandi til Ólafar ásamt aðstoðarmönnum sumarið 2007. Hópurinn ætlaði að dvelja hér í eina viku og vinna listmuni í gler undir leiðsögn Ólafar.
Henni datt þá í hug að það gæti verið spennandi að bjóða Borgfirsku fólki með fötlun að taka þátt og komast með því inn í alþjóðlegt verkefni sem nefnt hefur Outsiders Art.
Talið frá vinstri: Ölver, Guðmundur Ingi og Guðmundur Stefán
Hvað er Outsiders Art eða utangarðslist?
Stofnandi samtakanna heitir Huib van den Wijngaard og er hann Hollenskur listamaður. Hann hefur helgað samtökunum líf sitt síðustu áratugina eða allt frá því hann lauk listanámi og byrjaði að vinna með fólki með fötlun. Fljótlega áttaði hann sig nefnilega á því að í hópi þeirra leyndust miklir listamenn sem hvorki höfðu getu né sjálfstraust til að sýna almenningi verk sín. Nú eru samtökin orðin heimsfræg og verk sumra listamannanna eftirsótt um allan heim. Öll listaverkin sem unnin eru af fólkinu eru eign Outsiders Art samtakanna og fyrir ágóða af sölu þeirra er utangarðslistamönnum gert kleift að sinna listsköpun með mismunandi listformum á mismunandi stöðum án þess að þurfa að greiða mikið úr eigin vasa.
Kertastjakar að koma úr brennslu
Lagt af stað.
Byrjað var á að sækja um styrk til Menningarráðs Vesturlands og voru þeir svo vinsamlegir að veita verkefninu 200 þúsund krónur. Fyrir þá upphæð náðum við að bjóða tveim Borgfirskum karlmönnum að taka þátt. Þetta voru þeir Guðmundur Stefán Guðmundsson og Arnar Pálmi Pétursson. Sá þriðji Ölver Þráinn Bjarnason fékk svo tækifæri til að vera með síðasta daginn sem hópurinn dvaldi hér á landi.
Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vesturlandi styrkti verkefnið með því að greiða laun aðstoðarmanna hinna Borgfirsku listamanna. Einnig hefur undirrituð gefið alla sína vinnu hingað til og litið á það sem styrk til verkefnisins.
Hér málar Guðmundur Stefán "karlinn"
Byrjað var á vinnslu mynda til sandblásturs. Fólkið teiknaði á plast sem var límt á gler. Þeir sem gátu skáru svo myndirnar sínar út en aðstoðarfólk vann það verk í sumum tilfellum. Hópurinn málaði svo myndir á mismunandi stóra glerdiska seinni hluta tímabilsins. Það var stórkostlegt að fylgjast með okkar mönnum byrja hikandi að vinna sínar fyrstu myndir og með tímanum sjá þá blómstra og njóta þess að skapa falleg listaverk sem aðrir dáðust að.
Í lok vinnuvikunnar var haldin sýning í Gallerý Brák og voru það stoltir listamenn sem tóku á móti gestum og sýndu þeim hvað þeir höfðu gert. Einnig sýndum við hluta listaverkanna og settum upp glærusýningu með myndum og texta til að kynna Outsiders Art verkefnið í Landnámssetrinu þegar vetri var fagnað þar með ýmsu móti.
Árni, Hulda og Ölver teygja úr sér.
Fjölmiðlar sýndu verkefninu verðskuldaða athygli og kom fréttafólk frá Skessuhorni og Morgunblaðinu og tók viðtal við fólkið og einnig gerði Gísli Einarsson fréttamaður mjög góðan þátt sem sýndur var í Kastljósi hjá Ríkisútvarpinu.
Í framhaldi þessarar viku kom fram áhugi hjá fleirum að fá að taka þátt. Við vorum svo heppin að fá annan styrk að upphæð 100 þúsund úr styrktarsjóði Kristins Arnars Friðfinnssonar og var því hægt að halda þriggja daga námskeið fyrir sex Borgfirska menn með fötlun. Þar var unnið talsvert magn kertastjaka, glerdiska og platta og var mikil ánægja ríkjandi hjá hópnum.
Árni og Ölver kíkja yfir dagsverkið
Haldin var sölusýning í Gallerý Brák sunnudaginn 2.desember 2007. Þar voru seld glerverk fyrir rúmar 163 þúsund krónur. Þeir peningar voru allir settir í sameiginlegan ferðasjóð Borgfirskra utangarðslistamanna.
Hvað er framundan og hvers vegna er sótt um styrk?
Draumur okkar er að hægt verði að fara í ferð til Vínar í Austurríki í maí 2008 til að vera við opnun menningarviku utangarðslistamanna víðs vegar úr Evrópu. Ólöf hefur nú þegar ákveðið að bjóða tveim Borgifirðingum þeim Guðmundi Inga Einarssyni og Guðmundi Stefáni Guðmundssyni að sýna verk sín á sýningunni í Vín. Vegna þessa er afar mikilvægt að þeir geti unnið áfram við glerlist hjá henni fram á vorið .
Það er von okkar að með góðum stuðningi og styrkjum víða að verði hægt að bjóða upp á fleiri námskeið og mismunandi listform fyrir Borgfirska utangarðslistamenn því áhuginn er mikill og þeir bíða eftir framhaldinu.
Sumarið 2008 stefnum við svo á að bjóða þeim Guðmundi Inga, Guðmundi Stefáni og jafnvel einhverjum fleirum að fara til Hollands og vinna þar við glerlist í viku til tíu daga með sama fólkinu og kom hingað. Verið er að opna listasmiðju í Hollandi sem hefur fengið nafnið Gallerý Ólöf og er nafnið til heiðurs Ólöfu glerlistakonu í Gallerý Brák í Borgarnesi.
Arnar Pálmi og Guðmundur Stefán bjóða Arndísi Magnúsdóttur velkomna á sýningu
Allt fer þetta eftir því hversu vel okkur gengur að safna peningum því eins og allir skilja þá kostar þetta peninga. Við þurfum að senda aðstoðarfólk með okkar listamönnum og greiða fyrir ferðir, gistingu og uppihald meðan á dvölinni stendur bæði í Austurríki í maí og í vinnuferðinni til Hollands seinna í sumar. Framhaldið ræðst því algjörlega af undirtektum og velvilja þeirra sem við leitum til. Ekki er sótt um neina sérstaka upphæðir en eftir því sem meira safnast því meira er hægt að gera. Áhuginn er mikill og tækifærin ótrúlega spennandi.
Elli og Ólöf á góðri stundu
Margt smátt gerir eitt stórt. Ég bið því alla sem þetta lesa að standa þétt við bakið á utangarðslistamönnum í Borgarfirði. Það fer eftir undirtektum samfélagsins hvort þessi starfsemi getur haldið áfram.
Arndís Ásta Gestsdóttir
4.2.2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli